Stutt ágrip af sögu Skógræktarfélags Akraness

 

Skógræktarfélag Akraness stofnað miðvikudaginn 18. nóvember 1942.

Stofnfundurinn var haldinn á Vesturgötu 35. Bæjarstjórinn, Arnljótur Guðmundsson, setti fundinn og skýrði tilgang skógræktarfélaga og hvílík nauðsyn og menningarauki það gæti orðið Akurnesingum og Akranesi að hér mætti takast að vekja áhuga manna á trjárækt og í því sambandi að koma hér upp trjáræktunarstöð.

Á fundinn mættu tveir gestir úr Reykjavík, þeir Hákon Bjarnason skógræktarstjóri og Gísli Þorkelsson efnafræðingur. Þeir höfðu gengist fyrir því sumarið 1935 að plægt var smá móastykki inn með þjóðvegi og sáð í það birkifræi. Þessi frumraun var gerð á vegum Skógræktarfélags Íslands og var þetta svæði afhent hinu nýja félagi til umsjár.

Fyrsta stjórn félagsins var þannig skipuð að formaður var Arnljótur Guðmundsson bæjarstjóri, gjaldkeri Svafa Þorleifsdóttir skólastjóri og ritari Hálfdán Sveinsson kennari. Í varastjórn voru kosnir Ólafur B. Björnsson ritstjóri, Óðinn Geirdal skrifstofumaður og Jón Guðmundsson bæjargjaldkeri.

Á stofnfundinn mættum um 30 manns. Á nafnalista fundarins má sjá nöfn bæjarfulltrúa og fólks úr ýmsum stéttum þjóðfélagsins. Það var því myndarlega farið af stað.

Fundargerðir næstu ára segja lítið frá framkvæmdum enda lítið hægt að fá af plöntum til gróðursetningar.

Það mun hafa verið árið 1944 að Akranesbær afhendir Skógræktarfélaginu land það fyrir innan Garðatúnið sem nú er Garðalundur. Þetta vor fór Hálfdán Sveinsson með nokkra unglinga inn á þetta svæði og byrjar að gróðursetja víði- og birkiplöntur en aðrar plöntur voru ekki fáanlegar.

Þetta staðarval var af sumum talið óheppilegt vegna fjarlægðar frá bænum en sem betur fer urðu sjónarmið framsýnna manna ofaná.

 

Guðmundur Jónsson garðyrkjustjóri Akraneskaupstaðar 1947 til 1968

Guðmundur Jónsson var ráðinn til bæjarins sem garðyrkjuráðunautur árið 1947. Hann gekk strax til liðs við Skógræktarfélagið og var formaður þess frá 1947 til 1968. Tekur hann nú til við að gróðursetja í Garðalund og skipuleggja hann. Vann hann þar mikið og merkilegt starf, oft við lítinn skilning ráðamanna bæjarins. Gróðursetning greniplantna á þessu svæði hefst ekki fyrr en 1953 en þær voru gróðursettar í skjóli víðis og birkis sem var á skurðbakkanum við norðurhluta svæðisins.

Tilmæli komu frá skólastjórum beggja skólanna um að Skógræktarfélagið fengi nemendur skólanna á vorin til að vinna að gróðursetningu og fræða þá um gildi skógræktar. Ekki er hægt að sjá að orðið hafi verið við þessum tilmælum.

Það kemur fram í fundargerð að aðalfundur Skógræktarfélags Íslands hafi verið haldinn 5. - 6. júlí 1952 hér á Akranesi.

Þó ekki séu til skráðar heimildir um skógræktarstörf á þessu 25 ára tímabili er vitað að Guðmundur hélt áfram að gróðursetja plöntur í Garðalundi. Stundum sást Guðmundur koma með nokkrar litlar plöntur á reiðhjólinu sínu á leið upp í Garðalund því aldrei hafði hann sérstakan bíl til umráða á sínum langa starfstíma hjá bænum. Þessi verk Guðmundar nutu sjaldnast mikils skilnings enda var mikil vantrú hér í bæ á því að hægt væri að koma upp trjágróðri á þessum slóðum.

Garðalundur hefði ekki orðið til í þessari mynd sem hann er nú ef Guðmundur hefði ekki sýnt þennan dugnað og brennandi áhuga að gera hann að þeim sælureit sem hann er nú. Það var því vel til fallið að reista honum minnisvarða i Garðalundi þótt lundurinn sjálfur sé hans veglegasti minnisvarði.

Fundur var haldinn með stjórn félagsins 4. júlí 1968 að frumkvæði skógræktarstjóra ríkisins, Hákons Bjarnasonar, og Jóns Árnasonar alþingismanns. Efni fundarins var að kanna hvort ekki væri möguleiki á að blása lífi í félagið. Ákveðið var að boða til fundar með haustinu en sá fundur var aldrei haldinn.

 

Skógræktarfélagið endurreist 1980.

Félagsstarfið liggur í dvala þar til nokkrir áhugamenn um skógrækt boða til fundar 9. desember 1980. Þetta voru þeir Njörður Tryggvason, Stefán Teitsson og nýráðinn garðyrkjustjóri Oddgeir Árnason. Fundurinn var vel sóttur og mikill áhugi á að endurreisa félagið. Njörður, Oddgeir og Stefán voru kosnir til að undirbúa aðalfund.

Aðalfundurinn var haldinn 28. apríl 1981 í félagsheimilinu Röst og var fjölsóttur. Á þennan fund mættu stjórnarmenn félagsins sem ekki hafði haldið stjórnarfund síðan 1968. Bergur Arinbjörnsson gjaldkeri afhenti sparisjóðsbók með 35 þúsund krónum og séra Jón M. Guðjónsson afhenti fundargerðabók félagsins. Þessir menn óskuðu félaginu árangursríkrar framtíðar.

Á fundinum var kosin ný stjórn Skógræktarfélags Akraness. Stjórnina skipuðu: Oddgeir Árnason formaður, Njörður Tryggvason gjaldkeri og Stefán Teitsson ritari. Í varastjórn voru kosnar Þóra Björk Kristinsdóttir, Kristín Þorsteinsdóttir og Rakel Jónsdóttir. Endurskoðendur voru kosnir Björn Pétursson og Hallbera Leósdóttir.

Formaður gat þess að bæjarstjórn hefði samþykkt að styrkja félagið um kr. 4.000. Félagsgjald var samþykkt kr. 50. Þar sem fjárráð félagsins voru knöpp í upphafi var ekki áætlað að fara í neinar stórframkvæmdir.

 

Slaga 1980

Um þetta leiti var gengið frá samningi milli Akranesbæjar og Skógræktarfélags Íslands um að 36 hektarar lands í norðurhlíð Akrafjalls, sem kallað er Slaga, yrði framtíðar landssvæði fyrir skógrækt. Rotaryklúbbur Akraness gróðursetti þar nokkur tré undir leiðsögn Guðmundar Jónssonar árið 1980. Var nú hafin gróðursetning af fullum krafti í Slögu og hætti félagið að mestu störfum í Garðalundi sem Akranesbær hefur séð um síðan.

Ekki var starfið í Slögu áfallalaust því 1987 var kveikt í svæðinu og brann meirihluti þeirra plantna sem búið var að gróðursetja. 1989 var aftur kveikt í svæðinu en þá varð minna tjón.

Á tímabilinu 1980 til 2005 voru gróðursettar um 200 þúsund plöntur af ýmsum tegundum, aðallega greini, fura og birki. Lengi var reynt að setja niður ösp en kindur sem komust inn í girðinguna sáu fyrir þeim. Aspirnar hurfu venjulega á fyrsta sumri því að girðingin utan um svæðið hefur lengst af verið léleg. Nú er hún orðin nokkuð góð og hafa aspirnar fengið að vera í friði.

Upp úr árinu 1990 var gert átak í gróðursetningarstarfinu með því að hafa á staðnum verkstjóra með unglingunum allan daginn. Eftir það komst betra skipulag á alla vinnu. Lögð var áhersla á að leiðbeina verkstjórum við gróðursetningarstörf svo að þeir gætu sagt unglingunum til við þeirra störf sem fólust í gróðursetningu, áburðargjöf og að reita gras frá ungplöntum.

Unglingar hafa unnið á Slögusvæðinu á hverju vori, lengi vel við lélegar aðstæður. Þó fannst flestum mjög gaman að vinna þessi störf. Félagið eignaðist ekki vinnuskúr fyrr en árið 1995. Þá fékk félagið keyptan vegavinnuskúr. Við hann var byggður annar skúr sem hýsir verkfæri og hreinlætisaðstöðu.

Nokkur félög hafa fengið afmörkuð svæði til að gróðursetja í. Þar má nefna Landsbanka Íslands, Íslandsbanka og Búnaðarbanka. Einnig hefur Rotaryklúbbur Akraness farið árlega frá árinu 1981 í gróðursetningarferð á svæðið og hefur gróðursett plöntur á víð og dreif. Bankarnir byrjuðu allvel en en síðar dró úr starfi þeirra og nokkuð mörg ár eru síðan þeir hættu að sinna svæðinu.

Bæjarstjórnin kom nokkrum sinnum undir öruggri stjórn Gísla Gíslasonar bæjarstjóra og gróðursetti plöntur. Það hefur verið ágæt vettvangsskoðun í leiðinni því Skógræktarfélagið er jú að vinna að fegrun byggðarlagsins sem þeir stjórna.

 

Skjólbelti við innkeyrsluna í bæinn 2002

Árið 2002 var gerður samningur við bæjarfélagið um að Skógræktarfélagið tæki að sér að gera skjólbelti og planta trjám í svæði sunnan við innkeyrsluna í bæinn. Þar er búið að gróðursetja um 1000 metra langt skjólbelti og gróðursetja töluvert af grenitrjám, öspum, birki og fleiri trjátegundum. Þegar þarna verður komið upp skógarbelti kemur það til með að draga úr áhrifum norðanáttar og skafrennings inn í hið nýja Flatarhverfi. Sumarið 2012 unnu ungmenni á þessu svæði á vegum átaksverkefnis skógræktarfélagsins og Akraneskaupstaðar. Þetta var mikið þurrkasumar og því var ekki mikið gróðursett en aðallega klippt gras frá plöntum, áburður borinn á o.fl.

 

Ýmislegt úr starfi Skógræktarfélags Akraness

Á fimmtíu ára afmæli Skógræktarfélags Akraness árið 1992 bauð það Skógræktarfélagi Íslands að halda aðalfund sinn á Akranesi. Var aðalfundurinn haldinn í Fjölbrautaskólanum í ágúst. Mættu um 130-140 skógræktarmenn og -konur víðs vegar að af landinu. Þar á meðal var forseti Íslands frú Vigdís Finnbogadóttir sem hefur sýnt skógræktarmálum á landinu mikinn áhuga. Fundurinn stóð yfir frá föstudegi til sunnudags. Á laugardeginum var farið í Garðalund og hann skoðaður. Kom það mörgum fundarmönnum á óvart hvað hann var vöxtulegur og þótti sýna vel hvað skógræktarfélög geta gert þó lítið beri á þeim. Þarna var haldin veisla í boði landbúnaðarráðherra í skjóli hárra trjáa í sól og norðan kalda. Á laugardagskvöldið bauð Akranesbær til veislu í sal Fjölbrautaskólans. Voru veitingar og skemmtiatriði öll með rausnarbrag undir ágætri veislustjórn Gísla Gíslasonar bæjarstjóra. Við fundarslit á sunnudeginum þakkaði formaður Skógræktarfélags Íslands, Hulda Valtýsdóttir, fyrir góðar móttökur og þakkaði stjórn Skógræktarfélags Akraness fyrir ánægjulegan fund og fundarstjóra, Valdimari Indriðasyni, fyrir sérstaklega góða og skemmtilega fundarstjórn.

2005 voru um 80 félagar í Skógræktarfélagi Akraness en hafa flestir orðið 110. 2012 eru þeir tæplega 80. Eins og í flestum áhugamannafélögum hvílir starfið mest á stjórninni og nokkrum traustum félögum sem alltaf eru reiðubúnir að vinna þegar á þarf að halda. Á milli aðalfunda eru haldnir nokkir stjórnarfundir en á þeim er starf félagsins skipulagt fyrir hvert starfsár. Í aðalstjórn eru kosnir árlega 5 félagar og 3 til vara.

Eftirtaldir félagar hafa sinnt formannsstarfinu:

1942 - 1946 Arnljótur Guðmundsson

1946 - 1968 Guðmundur Jónsson

1981 - 1983 Oddgeir Árnason

1983 - 1986 Þóra Björk Kristinsdóttir

1986 - 1990 Stefán Jónsson

1990 - 1999 Stefán Teitsson

1999 - 2007 Barbara Davis

2007 - 2012 Bjarni Þóroddsson

2012 - ? Jens Benedikt Baldursson

Skógræktarfélagið hefur ætíð átt gott og náið samstarf við garðyrkjustjóra bæjarins sem allir hafa sýnt Skógræktarfélaginu mikinn áhuga og lagt því til gott starf. Eftirtaldir hafa sinnt þessu starfi:

Guðmundur Jónsson 1946 - 68

Oddgeir Árnason 1979 -1991

Katrín Ólafsdóttir 1991 - 1994

Andri Sigurjónsson 1994 - 1997

Hrafnkell Proppé 1997 - 2011

Íris Reynisdóttir 2011 -

Skógræktarfélagið þakkar þessu fólki gott samstarf.

 

Jens B. Baldursson tók saman upp úr sögu Skógræktarfélags Akraness eftir Stefán Teitsson frá 2005 og nýrri samantekt frá nóvember 2012.

Mars 2013. Jens B. Baldursson